Annar dagur þings BSRB

Þing BSRB var sett í gær í 44. sinn á Hótel Nordica Reykjavík. Þingið hófst með setningu formanns og síðan flutti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarp. Þar fagnaði hann samkomulagi þriggja aðildarfélaga BSRB sem hafði verið undirritað nokkrum klukkustundum áður. Þá afhenti Bjarni formanni BSRB undirritaða viljayfirlýsingu um tilraunverkaefni um styttingu vinnuvikunnar.

Einnig tók Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður BHM til máls áður en að prófessor Rúnar Vilhjálmsson flutti erindi um niðurstöður nýrrar rannsóknar sinnar á heilsu og lífsháttum Íslendinga. Erindi Rúnars að þessu sinni bar heitir „Íslenska heilbrigðiskerfið – Aðgengi, kostnaður og viðhorf til hlutverks hins opinbera“.

Þar kynnti hann m.a. viðhorf Íslendinga til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustu. Nýjar upplýsingar um kostnað heimila vegna heilbrigðisþjónustu voru greindar eftir aldurshópum, búsetu, menntun og stöðu á vinnumarkaði. Þá var einnig fjallað sérstaklega um frestun heilbrigðisþjónustu, þ.e. hversu margir sleppa því að leita læknis þótt þeir telji sig þurfa þess, hvers vegna slíkt á sér stað og hverjar afleiðingar þess eru. Rúnar var í ítarlegu viðtali við Spegilinn í gær og hlusta má þá hér (viðtalið hefst eftir u.þ.b. 9 mínútur)

Að setningarathöfninni lokinni hófust hefðbundin þingstörf þar sem þingmál voru lögð fram og þeim vísað í nefndir. Málefnahópar þingsins störfuðu svo margir hverjir fram á kvöld. Fjölmargir fyrirlesarar komu fyrir málefnahópanna og þar var unnið að stefnu og ályktunum þingsins. Áfram verður unnið að stefnu og ályktunum þingsins í dag.

Á morgun, föstudag, er síðasti dagur þingsins. Þá verða flest þingmálanna afgreidd auk þess sem kosningar fara fram eftir hádegið.



 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?