Stjórn BSRB samþykkti á fundi í sínum í gær eftirfarandi ályktun um málefni Ríkisútvarpsins.
Ályktun stjórnar BSRB um Ríkisútvarpið
Stjórn BSRB mótmælir harðlega enn einni fjöldauppsögn starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið hefur um áratuga skeið verið mikilvægur og nauðsynlegur hluti almannaþjónustunnar á Íslandi. Fyrir utan að gegna öryggishlutverki hefur Ríkisútvarpið stuðlað að jöfnu aðgengi allra að opinberri umræðu, afþreyingu, íþróttaviðburðum, menningu og fréttum. Með uppsögnum um fimmtungs starfsmanna Ríkisútvarpsins er ekki verið að gæta aðhalds heldur lama innviði stofnunarinnar og vandséð er að RÚV geti í kjölfarið staðið undir lögboðnu hlutverki sínu.
Með fjöldauppsögnunum varð enn einn hluti þess sem BSRB varaði við þegar Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag að veruleika. Sú breyting átti m.a. að skila hagkvæmari rekstri, sérstakt útvarpsgjald átti að tryggja fjármögnun Ríkisútvarpsins og starfsfólk átti að fá meira rými til að semja um laun sín á grundvelli verksviðs, ábyrgðar og hæfileika. Á þeim árum sem liðið hafa frá breytingunni hefur reksturinn aftur á móti orðið óhagkvæmari, ríkissjóður tekur sífellt til sín hærra hlutfall útvarpsgjaldsins til annarra verkefna og réttindi starfsfólks eru mun minni en áður.
Ríkisútvarpið hefur alla tíð notið mikils trausts almennings og gerir enn. Ríkisútvarpið heldur úti einu sjónvarpsstöðinni sem allir hafa aðgang að og hefur hún, ásamt útvarpsrásunum tveimur, þjónað skyldum sínum af alúð og dugnaði um áratuga skeið. Víða um land og á fiskimiðunum eru útsendingar RÚV einu fjölmiðlarnir sem í boði eru. Ríkisútvarpið er því mikilvægur hluti almannaþjónustunnar sem stuðlar að jöfnu aðgengi allra að upplýstri umræðu, fréttum, íþróttum, menningu og annarri afþreyingu.
Samfélagið allt mun bíða óbætanlegt tjón af þessari aðför að Ríkisútvarpinu. Þjóðin þarf á öflugum almannaþjónustumiðli að halda. Stjórn BSRB krefst þess að stjórnvöld tryggi Ríkisútvarpinu þær tekjur sem réttilega eiga að renna til þess í formi útvarpsgjaldsins. Öðruvísi er Ríkisútvarpið illa í stakk búið til að gegna lögbundnu hlutverki sínu í nútímalegu lýðræðissamfélagi.