Á fjölmennum fundi starfsfólks Sjúkratrygginga Íslands í gær kom fram mikil óánægja með viðhorf stjórnenda stofnunarinnar til sanngjarnar launaleiðréttingar. Unnið hefur verið að nýjum stofnanasamningi síðan fyrri hluta árs 2013 en ekkert gengið. Alls starfa um 50 félagsmenn SFR hjá Sjúkratryggingum Íslands og voru rúmlega 40 þeirra á fundinum.
Mikill meirihluti starfsfólksins eru konur og með fundinum í gær vill starfsfólkið vekja athygli á því að hjá stofnuninni sé verið að halda stórum kvennahópi niður í launum og mismuna gróflega í samanburði við fyrrum samstarfsfólk á Tryggingastofnun ríkisins. Fundurinn samþykkti ályktun þessa efnis sem send hefur verið til stjórnenda stofnunarinnar, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra auk fjölmiðla.
Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar upp úr Tryggingastofnun árið 2008 og var hluta starfsmanna TR boðið starf hjá hinni nýju stofnun. Þá kom fram að launakjör þeirra yrðu þau sömu við breytingarnar. Síðan hefur launaþróun þeirra starfsmanna sem enn starfa á TR orðið mun hagstæðari en hinna. Þetta hefur í för með sér að starfsmenn í starfi fulltrúa hjá Sjúkratryggingum hafa tæplega 50 þúsund króna lægri laun á mánuði í dag en fulltrúar hjá TR eða um 16% lægri laun. Þetta er auðvitað algjörlega ósættanlegt og starfsmenn krefjast þess að milli þessara systurstofnana sé gætt sanngirni.
Ályktun vegna kjaradeilu félagsmanna SFR sem eru í störfum fyrir Sjúkratryggingar Íslands
Fjölmennur fundur starfsmanna, félagsmanna SFR - stéttarfélags hjá Sjúkratryggingum Íslands, sem haldinn var í gær 23. október 2013, skorar á stjórnendur SÍ að setjast að samningaborði með fulltrúum SFR og ganga frá stofnanasamningi. Gerð er krafa um að laun félagsmanna SFR taki mið af sambærilegri launaþróun og hjá fyrrum samstarfsfélögum hjá Tryggingastofnun ríkisins og þar með sé virtur sá ásetningur um jafnsett laun, sem kom fram í bréfi stjórnarformanns við upphaf ráðningar starfsmanna SÍ árið 2008.
Tryggingastofnun ríkisins var skipt upp í tvær stofnanir árið 2008, Tryggingastofnun ríkisins (TR) og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Við skiptinguna var starfsmönnum sem unnu að verkefnum er heyrðu undir nýju stofnunina, boðinn nýr ráðningarsamningur. Í því bréfi sem starfsmenn fengu frá stjórnarformanni á þeim tíma var óskað eftir vinnuframlagi þeirra og um leið lýst yfir að: „Fljótlega verður gerður nýr ráðningarsamningur við þig á forsendum ráðningarsamnings þíns við Tryggingastofnun ríkisins“. Nú er ljóst að starfsmenn SÍ hafa dregist verulega aftur úr í launum miðað við starfsmenn TR og staðan sem nú er uppi er algerlega óásættanleg.
Frá upphafi yfirstandandi árs hefur SFR stéttarfélag reynt að ná samningum við SÍ um breytingar á stofnanasamningi, sem myndi tryggja að starfsmenn SÍ nytu að minnsta kosti jafn verðmætrar launaþróunar og félagsmenn í sambærilegum störfum hjá TR. Til að vinna að þessu markmiði lagði SFR fram í júní á þessu ári nær fullmótaða tillögu að stofnanasamningi. Fram hefur komið að stjórnendur SÍ hafna algerlega sanngjörnum kröfum um jafnræði til launa. Þvert á móti hafa þeir síendurtekið boðið upp á samning sem tryggi og festi enga launaþróun starfsmanna. Starfsmenn SÍ hafa ekki hug á að hlusta á slíka fásinnu, heldur kalla eftir sanngjörnum og eðlilegum lagfæringum á launum.