Ályktanir aðalfundar BSRB

Aðalfundi BSRB lauk í gær og í kjölfar hans voru sendar þrjár ályktanir frá fundinum. Ályktanirnar fjölluðu um kjaradeilu SLFÍ og SFR við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, stöðu heilbrigðismála á Íslandi og sú þriðja fjallaði um nýsamþykktar skuldaleiðréttingar og húsnæðismál.

Ályktanirnar má sjá hér að neðan:

 


Ályktun aðalfundar BSRB um skuldaleiðréttingar og húsnæðismál

Aðalfundur BSRB mótmælir því að í nýsamþykktum skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar er ekki komið til móts við stóran hluta heimila landsins, m.a. þá sem eru á leigumarkaði.

Til að markmið leiðréttingarinnar nái fram að ganga telur BSRB að leiðrétta þurfi öll lán sem íþyngja heimilum vegna hækkunar verðbólgu en ekki eingöngu lán vegna íbúðarhúsnæðis. Telji ríkisstjórnin að forsendubrestur hafi orðið vegna þess að verðbólga var hærri en við mátti búast þá hljóti það að gilda einnig um aðra verðtryggða samninga, þ.m.t. varðandi húsaleigu og námslán.

Þótt aðgerðin muni bæta stöðu margra heimila í landinu munu leiðréttingarnar gagnast þeim sem mest þurfa á að halda lítið eða ekki neitt. Aðalfundur BSRB mótmælir þeirri mismunun sem í aðgerðunum felst og krefst þess að úr verði bætt.

Samræmdar húsnæðisbætur óháð búsetuformi

BSRB hvetur stjórnvöld til að koma samræmdum húsnæðisbótum til framkvæmda sem fyrst í stað sérstakra vaxta- og leigubóta. Opinberar húsnæðisbætur, óháð því hvort fólk á eða leigir húsnæðið sem það býr í, stuðla að frekari jöfnuði á húsnæðismarkaði og mismuna fólki ekki eftir búsetuformi.

Stefna stjórnvalda í húsnæðismálum verður að taka mið af nýjum aðstæðum sem skapast hafa á Íslandi. Þess vegna er brýnt að koma til móts við hina miklu eftirspurn eftir leiguhúsnæði og jafna stuðning milli fólks á eigna- og leigumarkaði, líkt og gert er ráð fyrir í nýrri skýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála á Íslandi.

Öruggt húsnæði, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn af hornsteinum almennrar velferðar. Eitt af hlutverkum stjórnvalda er að tryggja öllum jafnan stuðning svo hver og einn geti búið í viðunandi húsnæði á viðunandi kjörum til framtíðar óháð búsetuforminu.

 

Ályktun aðalfundar BSRB um stöðu heilbrigðisþjónustunnar

Aðalfundur BSRB ítrekar mikilvægi þess að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag eða búsetu. Um áratugaskeið hefur almenn sátt ríkt um það fyrirkomulag heilbrigðismála að hið opinbera veiti hana og hún sé greidd úr okkar sameiginlegu sjóðum. Með sífellt aukinni kostnaðarþátttöku almennings er þeirri samfélagssátt sem ríkt hefur um fyrirkomulag heilbrigðismála á Íslandi ógnað. Aðalfundur BSRB mótmælir auknum álögum á sjúklinga og varar jafnframt við öllum aðgerðum sem miða að því að færa verkefni á sviði heilbrigðismála frá opinberum aðilum til einkaaðila.

Heilbrigðisstofnanir um land allt búa við fjársvelti og undirmönnun. Aðstæður og álag starfsfólks eru óviðunandi og laun of lág. Stjórnvöld verða að bregðast við vandanum og forgagnsraða fjárveitingum sínum í þágu velferðar þjóðarinnar allrar.

Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, aðbúnað og kjör starfsfólks hennar og jafnframt lágmarka greiðsluþátttöku almennings svo heilbrigðisþjónustuna megi reka á samfélagslegum grunni til framtíðar.

 

Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál

Aðalfundur BSRB krefst þess að þegar verði gengið frá kjarasamningum við þau aðildarfélög bandalagsins sem hafa lausa samninga við stofnanir innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV). Aðalfundur BSRB krefst þess einnig að SFV komi með raunverulegan samningsvilja að samningaborðinu í stað þess að nota verkföll hjá stofnunum sínum sem skiptimynt í deilum sínum um fjárveitingar við stjórnvöld.

Réttindi starfsmanna stofnana í velferðarþjónustu voru um áratugaskeið í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Síðustu ár hafa nokkrar stofnanir innan SFV hætt að viðurkenna þau réttindi og harmar aðalfundur BSRB að allar stofnanir viðurkenni ekki lengur sjálfsögð og eðlileg réttindi starfsmanna sinna. Breyting á viðhorfi SFV til réttinda opinberra starfsmanna sem starfa hjá stofnunum SFV myndi greiða fyrir gerð nýrra kjarasamninga milli aðildarfélaga BSRB og SFV.

Endurskoða þarf rekstrarform sjálfseignarstofnana

Aðalfundur BSRB telur jafnframt að endurskoða þurfi rekstrarfyrirkomulag svonefndra sjálfseignarstofnana sem sinna velferðarstöfum. Sjálfseignarstofnanir sem sinna velferðarþjónustu, t.d. Grund, Hrafnista, Sunnuhlíð, Sóltún og Eir, gegna mikilvægu hlutverki innan heilbrigðiskerfisins og eru fjármagnaðar með opinberu fé.

Velferðarmál eru á ábyrgð ríkisins en með núverandi rekstrarfyrirkomulagi sjálfseignarstofnana er ríkið að fría sig ábyrgð á rekstri þeirra. Á meðan SFV viðurkennir ekki sjálfssögð réttindi starfsmanna sinna og ríkið axlar ekki ábyrgð á því hvernig stofnanirnar eru reknar er augljóst að rekstrarfyrirkomulagið gengur ekki upp.

Aðalfundur BSRB gerir þá kröfu að SFV viðurkenni tafarlaust að réttindi sambærileg lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi um félagsmenn opinberra stéttarfélaga sem starfa hjá stofnunum SFV. Jafnframt að rekstrarfyrirkomulag stofnanna SFV verði endurskoðað svo skýrt verði að ábyrgð á rekstri þeirra sé fyrst og síðast hjá ríkinu.


Ályktun aðalfundar BSRB um húsnæðismál

Ályktun aðalfundar BSRB um stöðu heilbrigðisþjónustunnar

Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál og vinnudeilu við SFV




Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?