Afdrifaríkar ákvarðanir um lífeyriskerfið verða að vera í sátt

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ (t.v.), Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Friðrik Jónsson, formaður BHM.

Nokkur styr hefur staðið um forsendur og framtíð íslenska lífeyriskerfisins undanfarið. Deilt hefur verið um samtryggingu og séreign og nú eru komnar fram tillögur um hækkun lífeyristökualdurs. Það er launafólk í landinu sem á lífeyriskerfið og því óásættanlegt hve mikið hefur skort á samráð við samtök launafólks þega rætt hefur verið um breytingar á kerfinu. Áframhaldandi skortur á samráði og bútasaumsaðferð í ákvarðanatöku mun reynast almenningi dýrkeyptur.

Í júlí síðastliðnum stóð íslenska lífeyriskerfið í um 6.000 milljörðum króna. Gerir það 16 milljónir króna á hvern Íslending eða tvöfalda landsframleiðslu á ársgrundvelli. Á síðustu 60 árum hafa lífslíkur Íslendinga aukist að meðaltali um tæp tíu ár. Árið 1960 voru þær rúmlega 73 ár en eru í dag um 83 ár. Almennt hefur þessi þróun á auknum lífslíkum verið nokkuð jöfn og þar með fyrirsjáanleg. Þegar grunnur núverandi lífeyriskerfis var lagður á sjöunda áratug síðustu aldar var þetta vitað og einnig talið fyrirsjáanlegt. Að sama skapi var þekkt þá, eins og nú, að meðaltöl segja ekki alla söguna. Þannig lifa konur almennt lengur en karlar. Munur er á lífslíkum milli menntaðra og ómenntaðra, langskólagenginna og annarra, auk augljóss munar á milli þeirra sem vinna líkamlega erfiðisvinnu og annarra. Og enn er það svo að ríkir lifa umtalsvert lengur en fátækir.

Í lífeyriskerfi landsins leika tryggingastærðfræðingar mikilvægt hlutverk við útreikninga skuldbindinga sjóðanna. Í nýjustu útreikningum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga er tekið tillit til spár um hækkandi lífaldur þjóðarinnar og hvatt til þess að viðmiðunaraldri lífeyrisréttinda verði breytt í samræmi við spálíkan félagsins. Með öðrum orðum að lífeyrisaldur á Íslandi verði hækkaður.

Bútasaumsaðferð eða heildarendurskoðun?

Aldrei hefur staðið á fulltrúum launafólks að ræða áskoranir lífeyriskerfis þjóðarinnar, enda eru þau einu raunverulegu fulltrúar eigenda þess. Ekki atvinnurekendur og ekki stjórnvöld. Eftirlaunakerfið er flókið og byggir á þremur stoðum. Samtryggingarsjóðir lífeyrissjóðanna eru ein þessara stoða. Hinar tvær eru séreignarsparnaður og almannatryggingarkerfið. Ákvarðanir um samspil þessara stoða eða breytingar á þeim varða hagsmuni ólíkra kynslóða og grundvallarréttindi einstaklinga.

Það er gríðarlega mikilvægt að slíkar ákvarðanir séu aðeins teknar að undangengnu virku samráði við fulltrúa launafólks. Grunnforsendur kerfisins þurfa að vera skýrar og réttlátar og til þess fallnar að skapa traust, enda traust almennings á stjórnvöldum, lífeyrissjóðunum og lífeyriskerfinu ekki mikið fyrir. Það þarf að endurskoða kerfið í heild sinni og sú endurskoðun þarf að vera nákvæm, fagleg og gagnsæ. Þar til slíkri endurskoðun er lokið er óásættanlegt með öllu að gera breytingar á lífeyristökualdri líkt og tryggingarstærðfræðingar leggja til.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Friðrik Jónsson, formaður BHM

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?