Aðalfundi BSRB lauk rétt í þessu. Fyrir hádegi fjallaði Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, um starfsemi og árangur sjóðsins. Árni Stefán Jónsson varaformaður BSRB fór því næst yfir stöðu í lífeyrismálum og Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB fór yfir gang kjarasamningsviðræðna.
Eftir hádegið tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Aðalfundur BSRB samþykkti á fundinum eina ályktun um kjaramál sem sjá má hér að neðan:
Ályktun aðalfundar BSRB um kjaramál
Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld og launagreiðendur axli sína ábyrgð á þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp á vinnumarkaði. Launafólk getur ekki eitt borið ábyrgð á stöðugleika efnahagslífsins. Stjórnvöld og atvinnurekendur verða einnig að leggja sitt af mörkum til að mögulegt sé að skapa sátt á vinnumarkaði.
Ríkisstjórnin hefur gefið eftir skatta á þá efnamestu á meðan atvinnurekendur greiða sér milljarða í arð og hækka laun sín um tugi prósenta. Á sama tíma eru launahækkanir almennra starfsmanna umfram 3% sagðar ógna efnahagslífinu í heild. Slíkt er aðeins til þess fallið að auka ójöfnuð og skapa ósætti. Stjórnvöld og atvinnurekendur verða að sýna í verki að þau vinni að hagsmunum heildarinnar og halda þegar af braut sérhagsmuna og ójafnaðar.
Grafalvarlegt ástand ríkir nú á vinnumarkaði. Vinnustöðvanir og verkföll eru alfarið á ábyrgð stjórnvalda og atvinnurekenda sem hafa á engan hátt komið til móts við launafólk. Á meðan stjórnvöld sitja aðgerðarlaus hjá er ljóst að vandinn innan heilbrigðiskerfisins magnast enn frekar.
Aðalfundur BSRB krefst þess að stjórnvöld komi nú þegar fram með raunhæfar lausnir að samningaborðinu til að forða megi samfélaginu frá frekari skaða en þegar hefur orðið.