44. þing BSRB hefst á morgun

Þing BSRB verður sett kl. 10 á morgun, miðvikudaginn 28. október, á Hótel Nordica í Reykjavík. Þingið mun standa til föstudags og fer fram þrátt fyrir óvissu um stöðu kjaraviðræðna þriggja fjölmennustu aðildarfélaga BSRB sem semja við ríkið.

Síðustu daga hafa samninganefndir SFR, SLFÍ og LL átt í viðræðum við samninganefnd ríkisins sem fram til þessa hafa ekki skilað árangri. SFR og SLFÍ hafa staðið í verkföllum síðustu misseri og að óbreyttu hefst tveggja sólarhringa allsherjarverkfall á miðnætti annað kvöld sem mun standa til miðnættis á föstudagskvöld.

Þrátt fyrir þessa stöðu mun þing BSRB verða sett á morgun kl. 10. Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB mun flytja setningarræðu sína og að því loknu mun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarpa þingið.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, mun síðan kynna niðurstöður úr nýrri rannsókn sinni á heilsu og lífsháttum Íslendinga. Erindi Rúnars að þessu sinni ber heitir „Íslenska heilbrigðiskerfið – Aðgengi, kostnaður og viðhorf til hlutverks hins opinbera“.

Þar verða m.a. kynnt viðhorf Íslendinga til reksturs og fjármögnunar heilbrigðisþjónustu. Nýjar upplýsingar um kostnað heimila vegna heilbrigðisþjónustu verður greindur eftir aldurshópum, búsetu, menntun og stöðu á vinnumarkaði.

Þá mun Rúnar einnig fjalla sérstaklega um frestun heilbrigðisþjónustu, þ.e. hversu margir sleppa því að leita læknis þótt þeir telji sig þurfa þess, hvers vegna slíkt á sér stað og hverjar afleiðingar þess eru.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?