Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019

Umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019, 1. mál.

Reykjavík, 8. október 2018

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019, 1. mál.


Fæðingarorlof og tryggingagjald

Í frumvarpinu er lagt til að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði hækkaðar í 600.000 kr. á mánuði.

BSRB leggur áherslu á að niðurstöðu meirihluta starfshóps sem skipaður var af félags- og húsnæðismálaráðherra verði fylgt eftir. Þær voru að greiðslur í fæðingarorlofi verði óskertar upp að 300.000 kr. og fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði. Niðurstöður starfshópsins lágu fyrir í mars 2016 en allir fulltrúar í hópnum studdu tillögu um hækkun hámarksgreiðslna í 600.000 kr. mánaðarlega. Uppreiknað er sú fjárhæð um 650.000 kr. árið 2018 og telur bandalagið að miða eigi við þá upphæð þegar hámarksgreiðslan verður hækkuð.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur:
„Ríkisstjórnin leggur áherslu á jafnrétti kynjanna. Meðal þess sem sett verður á dagskrá í samtali stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er lenging fæðingarorlofs og hækkun orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi.“
„Gott samfélag er barnvænt samfélag. Alþingi hefur samþykkt að brúa þurfi bil milli fæðingarorlofs og leikskóla og er lenging fæðingarorlofs mikilvægt framlag ríkisins í þá brúarsmíð.“

Umönnunarbilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði, hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu til mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður.

Það er því ekki síður brýnt að brúa umönnunarbilið svo ekki taki við að loknu fæðingarorlofi tímabil sem grefur verulega undan jafnrétti kynjanna og afkomu fjölskyldna með ung börn. Enn fremur má benda á að launabilið milli kynjanna eykst á þessu aldursskeiði, þegar barneignir hefjast. Með öðrum orðum þá hefur þessi lengri fjarvera kvenna frá vinnumarkaði áhrif á launamun kynjanna og möguleika á starfsframa.

Ljóst er að því fylgir kostnaður að tryggja öllum börnum dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Ítrekað hefur verið bent á í fjölmiðlum að neyðarástand ríki víða um landið þegar kemur að dagvistunarmálum. Þetta er samfélagslegt vandamál og leggur BSRB því áherslu á að lögfest verði tryggt dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi.

BSRB leggst alfarið gegn lækkun tryggingargjalds sé það á kostnað framangreindra breytinga á fæðingarorlofskerfinu. Tryggingagjaldið hefur verið mjög sveiflukennt. Meðaltal þess frá árinu 1990 er um 6,4%.

Umsögn um fjárlög mynd 1

Umræðan er oft á þá leið að nú sé tryggingagjaldið svo hátt í sögulegu samhengi sem réttlæti lækkun þess nú úr 6,85% í 6,6% á næsta ári og svo 6,35% í næstu fjárlögum. Tryggingagjaldið yrði þá komið undir langtímameðaltal þrátt fyrir að ekki hafi verið ráðist í nauðsynlegar úrbætur á fæðingarorlofskerfinu. BSRB telur rétt að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækka fjárhæðina í 650.000 kr. með fyrstu 325.000 kr. óskertum áður en tryggingagjaldið verður lækkað.
Barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur

Það er stefna BSRB að almennt verði dregið úr skerðingum í bótakerfum. BSRB er því ekki fylgjandi nýju þrepi barnabóta með hærri skerðingarprósentu.

Mikið hefur dregið úr útgjöldum til barnabóta á síðustu árum. Því er nægt svigrúm til að hækka grunnfjárhæðir án þess að hækka skerðingarprósentur á móti. Á meðfylgjandi mynd sést skýrt hvernig stuðningur við barnafjölskyldur hefur farið minnkandi á undanförnum árum og barnabætur hafa rýrnað.

Umsögn um fjárlög mynd 2 

Vaxtabætur og húsnæðisbætur sitja eftir í þessum fjárlögum þrátt fyrir miklar hækkanir á húsnæðisverði og húsaleigu. BSRB leggur á það áherslu að húsnæðisstuðningur verði jafnaður óháð búsetuformi þannig að leigjendur fái sambærilegan stuðning í formi húsnæðisbóta og eigendur fá í formi vaxtabóta.

Almennt hefur verið dregið stórlega úr bótum á undanförnum árum sem og í þessum fjárlögum. Þær hækkanir lágmarkslauna sem samið hefur verið um í kjarasamningum á undanförnum árum hafa því ekki skilað sér með þeim hætti sem til var ætlast heldur hafa skattahækkanir og lækkun bóta valdið því að ráðstöfunartekjur tekjulægstu hópanna hafa aukist minna en annarra.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægri hafa hækkað minna en þeirra tekjuhærri á árunum 2013-2016. Á myndinni sést að því hærri sem tekjur fólks eru því meira hafa ráðstöfunartekjurnar hækkað. Það felur í sér að þeir tekjuhærri hafa hækkað meira en tekjulægri í ráðstöfunartekjum. 

Umsögn um fjárlög mynd 3

 

Fyrir hönd BSRB


Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?