Aðilaskipti að fyrirtækjum

Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 eiga að vernda réttarstöðu og atvinnuöryggi starfsmanna þegar aðilaskipti verða að fyrirtækjum sem þeir starfa hjá, hvort sem aðilaskiptin ná til allrar starfsemi fyrirtækisins eða hluta. Aðilaskipti geta orðið vegna yfirtöku á fyrirtækinu, kaupa eða leigu á fyrirtæki eða hlutum þess og einnig ef opinber vinnustaður færist yfir til einkarekins fyrirtækis á grundvelli sérstaks samnings þar um. Sem dæmi um slíka yfirfærslu má nefna þegar sveitarfélög gera samning við einkarekin fyrirtæki um rekstur leikskólans undir þeirra nafni, en tekið skal fram að þetta á ekki við um endurskipulagningu stjórnsýslu.

Aðilaskipti að fyrirtækjum

  • Réttarvernd starfsmanna

    Við aðilaskiptin haldast þau réttindi og þær skyldur sem starfsmaður hafði og færast yfir til framsalshafa, sem er fyrirtækið sem tekur við rekstrinum. Þetta á einnig við um vanefndir framseljanda, sem er atvinnurekandi sem er að láta frá sér reksturinn.

    Þannig myndi fyrirtæki sem tekur við rekstrinum taka við skuld gagnvart starfsmanni sem starfsmaður átti inni hjá atvinnurekanda fyrir aðilaskiptin. Framsalshafi þarf áfram að virða launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningum á gildistíma hans, en einnig þau kjör sem starfsmaður hefur samkvæmt ráðningarsamningi.

    Í Hrd. 313/2005 var deilt um rétt starfsmanns til launa í uppsagnarfresti hjá nýjum vinnuveitanda sem hafði yfirtekið starfsemina. Fyrir lá að sú starfsemi sem starfsmaður sinnti hafði færst yfir til annars atvinnurekanda, sem var þó nátengdur hinum fyrri. Hinn nýi atvinnurekandi taldi sig ekki þurfa að greiða laun í uppsagnarfresti en Hæstiréttur taldi hinn nýja atvinnurekanda hafa yfirtekið starfsemina og hún þannig orðið að efnahagslegri einingu í skilningi laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Samkvæmt því átti starfsmaðurinn rétt á að fá greiðslur í uppsagnarfresti frá hinum nýja atvinnurekanda.

    Hafi starfsmaður unnið hjá opinberum vinnuveitanda, og þar með haft réttindi og skyldur sem opinber starfsmaður samkvæmt kjarasamningi, þá heldur hann þeim réttindum þó rekstur opinbers vinnustaðar hans færist yfir til einkarekins atvinnurekanda. Þetta getur til dæmis gerst þegar sveitarfélag gerir samning við einkarekinn aðila um rekstur leikskóla eða annars konar vinnustaðar á vegum sveitarfélagsins. Þeir starfsmenn sem unnu hjá þeim vinnustað áður en aðilaskiptin áttu sér stað halda þannig sínum réttindum samkvæmt kjarasamningi.

  • Upplýsingar og samráð

    Trúnaðarmenn starfsmanna, eða starfsmenn sjálfir séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi, skulu fá upplýsingar um eftirfarandi:

    • Dagsetningu aðilaskipta eða fyrirhugaða dagsetningu þeirra.
    • Ástæður aðilaskipta.
    • Lagaleg, efnahagsleg og félagsleg áhrif aðilaskiptanna fyrir starfsmenn og
    • hvort ráðstafanir séu fyrirhugaðar vegna starfsmanna, eins og t.d. uppsagnir.

    Ef framseljandi eða framsalshafi gera ráðstafanir vegna starfsmanna sinna skal hafa samráð um þær með góðum fyrirvara við trúnaðarmenn, eða starfsmenn sjálfa séu trúnaðarmenn ekki fyrir hendi.

  • Uppsagnarvernd við aðilaskipti

    Framseljanda eða framsalshafa er óheimilt að segja upp starfsmönnum vegna aðilaskipta, bæði fyrir og eftir aðilaskiptin, nema efnahagslegar, tæknilegar eða skipulagslegar ástæður séu fyrir hendi sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi fyrirtækisins. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?