44. þing BSRB 28. til 30. október 2015

44. þing BSRB fór fram dagana 28. til 30. október 2015 í Reykjavík. Alls voru 239 fulltrúar á þinginu sem að þessu sinni fór fram undir yfirskriftinni „Öflug almannaþjónusta – betra samfélag“. Á þingum bandalagsins fer fram málefnavinna sem birtist m.a. í ályktunum þingsins og nýrri stefnu BSRB. Vinnan fer fram í sérstökum málefnahópum sem voru fimm talsins að þessu sinni. Þá er jafnframt kosið í embætti bandalagsins á þingum þess.

 

Öflug almannaþjónusta – betra samfélag

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

„Undirstaða okkar samfélags, er að hér eiga allir að hafa jafnan rétt rétt – óháð kyni, aldri, búsetu, uppruna, trúar eða efnahag. Sameiginlegan rétt til menntunar, umönnunar og heilbrigðisþjónustu án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Og það er þetta sem almannaþjónustan veitir,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í setningarræðu sinni á þinginu.

„Almannaþjónustan er undirstaða jafnaðar, félagslegs réttlætis og velferðar okkar allra. Hvar svo sem við stöndum og hvernig svo sem við erum gerð, eigum við að geta treyst á, að ef eitthvað bjátar á, þá verði okkur hjálpað eftir fremsta megni til að komast aftur á réttan kjöl. Við setjum traust okkar á félagslega samheldni, þar sem hagur heildarinnar og velferð fjöldans er í fyrirrúmi. Samfélag sem hefur þá hugsun að leiðarljósi er samfélag sem gott er að lifa í. Samfélag þar sem skattkerfið er nýtt til lífskjarajöfnunar og skattar standa undir samneyslunni. Samfélag sem hafnar þeirri hugmynd að hver sé sjálfum sér næstur – en byggir þess í stað á hugmyndum um samhjálp og félagshyggju. Slíkt samfélag fær ekki þrifist án öflugrar almannaþjónustu. Öflug almannaþjónusta byggir betra samfélag,“ sagði Elín Björg jafnframt en ræðu hennar í heild sinni má finna hér.

 

Tilraunaverkefni með styttingu vinnuviku

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarpar 44. þing BSRB

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ávarpaði þingið einnig við setningu þess þar sem hann afhenti jafnframt formanni BSRB viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma. Tilraunaverkefni af þessu taki hefur lengi verið baráttumál BSRB og þegar hefur Reykjavíkurborg farið af stað með slíkt verkefni sem fram til þessa hefur gefist vel. Það var því sérstaklega ánægjulegt að það skilyrði BSRB fyrir gerð nýrra kjarasamninga að ríkið myndi einnig láta reyna á styttingu vinnutíma skildi ná fram að ganga.

Markmið tilraunaverkefnisins er að kanna hvort stytting vinnuviku úr 40 vinnustundum á viku niður í 36 stundir leiði til gagnkvæms ávinnings starfsmanna og viðkomandi stofnana. Sérstaklega verði skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þar á meðal þar sem unnin er vaktavinna.

Af þessu tilefni verði stofnaður starfshópur skipaður fulltrúum ráðuneyta og BSRB og hugsanlega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópnum verður falið að skilgreina nánar markmið og aðferðir sem verði notaðar við útfærslu verkefnisins og hvernig skuli meta áhrif styttingu vinnutíma á heilsu og vellíðan starfsfólks og starfsanda á vinnustöðunum og þá þjónustu sem viðkomandi vinnustaðir veita með tilliti til gæða og hagkvæmni.

Gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið verði í samræmi við gildistíma framangreindra kjarasamninga. Starfshópur mun skila af sér skýrslu um árangur tilraunaverkefnisins a.m.k. sex mánuðum áður en kjarasamningar renna út.

 

Mikill stuðningur við félagslegt heilbrigðiskerfi

Rúnar Vilhjálmsson prófessor ávarpar 44. þing BSRB

Sérstakur gestur þingsins að þessu sinni var prófessor Rúnar Vilhjálmsson sem kynnti þar niðurstöður heilbrigðiskönnunarinnar 2015 sem hann hefur unnið m.a. með styrk frá BSRB. Umfjöllunarefni Rúnar að þessu sinni voru nýjar niðurstöður um afstöðu fólks til hver eigi að reka heilbrigðiskerfið og hvernig það eigi að fjármagna það. Tilhneiging er til aukins fylgis Íslendinga við opinberan rekstur heilbrigðisþjónustunnar þegar niðurstöður könnunarinnar í ár eru bornar saman við fyrri rannsóknir. Á sama tíma dregur úr fylgi við að einkaaðilar reki einstaka þætti heilbrigðisþjónustunnar. Þetta á við um nær alla þætti heilbrigðisþjónustunnar.

Þá kynnti Rúnar einnig niðurstöður er varða kostnað heimila við heilbrigðisþjónustu sem hefur aukist hjá viðkvæmustu hópunum sem síðan hefur haft þau á áhrif sumir fresta því eða sleppa að leita sér læknisþjónustu, jafnvel þótt fólk telji sig þurfa á henni að halda. Eft­ir því sem heil­brigðisút­gjöld væru hærra hlut­fall af tekj­um heim­ila því al­geng­ara væri að fólk frestaði þjón­ust­unni. Öryrkjar eru sá þjóðfélagshópur sem greiðir hlutfallslega mest af ráðstöfunartekjum sínum í heilbrigðisþjónustu hér á landi, eða um 10%. Þar á eftir koma langveikir, fólk sem þarf oft að sækja sér þjónustu á göngu og bráðadeildir. Fjölda þeirra sem fresta þess að leita heilbrigðisþjónustu vegna kostnaðar hennar fer stöðugt vaxandi.

Ljóst er að þetta er mikið áhyggjuefni en frekari niðurstöður úr könnunum Rúnars Vilhjálmssonar má finna á heimasíðu BSRB auk þess sem fleiri niðurstöður verða kynntar á næstu mánuðum.

 

Fjöldinn virkjaður til þátttöku

Þegar setningu þingsins var lokið hófust hefðbundin þingstörf sem að þessu sinni fóru að mestu fram í fimm málefnahópum sem fjölluðu um ólík málefni. Að þessu sinni störfuðu málefnahópar sem fjölluðu um velferðarmál, fjölskylduvænt samfélag og stöðu verkalýðshreyfingarinnar, BSRB og aðildarfélaga þess í framtíðinni. Einnig fjallaði einn málefnahópurinn um starfsumhverfi starfsmanna í almannaþjónustunni og annar um atvinnumál.

Fyrir hvern málefnahóp komu nokkrir fyrirlesarar og þar fyrir utan var unnið í smærri hópum innan hvers málefnahóps þar sem unnið var að stefnu og ályktunum bandalagsins. Síðan hefur starfsfólk BSRB verið að vinna úr niðurstöðum málefnahópanna og í samráði við stjórn BSRB verður framkvæmdaáætlun bandalagsins útbúin þar sem verkefnum næstu ára verður forgangsraðað.

Almennt var gerður góður rómur að þessu fyrirkomulagi þingstarfanna og með þessu voru sem flestir virkjaðir til þátttöku og skoðanir sem flestra fengu að heyrast.

 

Unnið að stefnu og ályktunum BSRB

Út úr málefnahópunum hefur svo stefna BSRB til næstu þriggja ára verið mótuð og skiptist hún í nokkra kafla. Þeir eru: starfsumhverfi fólks í almannaþjónustunni, vinnuvernd, stefna varðandi málefni vaktavinnufólks, umhverfismál, velferðarmál, almannaþjónusta, heilbrigðismál, almannatryggingar, húsnæðismál, jafnréttismál, kynbundinn launamunur, fjölskylduvænt samfélag, kjaramál, lífeyrismál, atvinnumál, efnahags- og skattamál. Nánar verður unnið úr stefnunni á næstunni og stefnunni raðað inn í framkvæmdaáætlun BSRB. Þau skjöl verða birt hér á vef BSRB.

Þá var fjöldi ályktanna samþykktur á þinginu sem fjallaði um hin fjölbreyttustu mál. Meðal ályktana má nefna ályktun um efnahags- og skattamál, um fjölskylduvænna samfélag, um almannaþjónustu, heilbrigðismál, lífeyrismál opinberra starfsmanna, starfsumhverfi starfsfólks almannaþjónustunnar, styttingu vinnuvikunnar og trúnaðarmannakerfið.

 

Ný forysta BSRB kosin

Atkvæðagreiðsla á 44. þingi BSRB 2015

Á lokadegi þingsins voru þingmál afgreidd auk þess sem kosningar í embætti BSRB fóru fram. Sú breyting tók gildi að í stað þess að formenn allra aðildarfélaga BSRB eigi sæti í stjórn bandalagsins er stjórnin ný skipuð níu fulltrúum sem eru kosnir á þingi. Stjórnin skal skipuð formanni BSRB ásamt fyrsta og öðrum varaformanni auk sex meðstjórnenda.

Elín Björg Jónsdóttir var endurkjörin formaður BSRB, Árni Stefán Jónsson formaður SFR var endurkjörinn 1. varaformaður og Garðar Hilmarsson formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur var endurkjörinn 2. varaformaður. Þá var ný stjórn bandalagsins kosin og þeir sem hlutu kjör í stjórn BSRB ásamt formönnunum að þessu sinni voru Arna Jakobína Björnsdóttir Kili, Halla Reynisdóttir Póstmannafélagi Íslands, Helga Hafsteinsdóttir Starfsmannafélagi Dala- og Snæfellsnessýslu, Karl Rúnar Þórsson Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar, Kristín Á. Guðmundsdóttir Sjúkraliðafélagi Íslands og Snorri Magnússon Landssambandi lögreglumanna.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?