Efnahags- og skattamál

BSRB leggur áherslu á að félagslegur stöðugleiki sé hafður að leiðarljósi við efnahagsstjórn. Efnahagsleg misskipting fer vaxandi á Íslandi, sérstaklega þegar litið er til eigna. Samþjöppun auðs og valds er skaðleg fyrir samfélagið og veldur félagslegri stéttskiptingu og dregur úr félagslegri samheldni. Við þessu verður að bregðast m.a. með skattkerfisbreytingum.

BSRB leggur áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Reka á skattkerfið og um leið velferðarkerfið með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Þeir sem betur eru stæðir ættu að leggja hlutfallslega meira til en hinir sem verr eru staddir. Samstaða þarf að nást um þessa hugsun í rekstri hins opinbera og hafa samstöðu og jöfnuð fólks að leiðarljósi.

Sveitarfélögin veita íbúum sínum mikilvæga þjónustu og verkefnum þeirra fjölgar jafnt og þétt. Tekjustofnar sveitarfélaga endurspegla ekki þessa þróun. Það hefur leitt til þess að laun starfsfólks hjá sveitarfélögunum eru að jafnaði þau lægstu á íslenskum vinnumarkaði. BSRB telur því nauðsynlegt að hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum hins opinbera verði endurskoðuð og aukin.

Mikilvægt er að auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins og lækka skattbyrði lág- og millitekjuhópa og jafna tekjutapið með skattlangingu á hæstu tekjurnar og stóreignafólk. BSRB vill að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður þannig að tekjuskattur á rekstrarhagnað og fjármagnstekjuskattur verði sambærilegur við tekjuskatt á launatekjur og að skatthlutfallið sé hærra fyrir þá sem eru með hæstu fjármagnstekjurnar. Einnig þarf að herða reglur um skattlagningu reiknaðs endurgjalds þannig að ákveðið lágmark heildartekna verði skattlagðar sem almennar tekjur.

BSRB krefst þess að brugðist verði við auknum eignaójöfnuði með stóreignaskatti á hreina eign þeirra allra ríkustu og að tekjur og eignamyndun eignarhaldsfélaga sem ekki eru í atvinnurekstri verði skattlagðar hjá eigendum.

Ísland er ríkt af auðlindum. BSRB krefst þess að þjóðin fái réttmæta hlutdeild í arðinum sem skapast af nýtingu einkaaðila á auðlindum með auðlindaskatti. BSRB leggur einnig ríka áherslu á að auðlindir verði í almannaeigu en ekki í eigu einkaaðila.

BSRB leggur áherslu á opinbert eignarhald á grunninnviðum samfélagsins og leggst alfarið gegn sölu orkufyrirtækja í eigu hins opinbera og annara arðberandi fyrirtækja.

BSRB krefst þess að skattalöggjöfin verði tekin til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að stoppa í götótt og ívilnandi regluverk sem leiðir til skattasniðgöngu, ójöfnuðar og veikingar tekjustofna hins opinbera. Einnig þarf að stórefla skattaeftirlit en fjáveitingar í þann málaflokk skila sér margfalt til baka í opinbera sjóði með aukinni skattheimtu.

Tæknibreytingar og sjálfvirknivæðing kalla á nýja hugsun í tekjuöflun. Þegar tæknin leysir mannshöndina af hólmi er mikilvægt að hagnaðurinn sem af því skapast renni að hluta til hins opinbera.

Álagning kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti er mikilvægur liður í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. BSRB krefst þess að áður en ákvarðanir um skattlagningu eða skattaívilnanir til að draga úr losun eru teknar verði gerð greining á áhrifum skattlagningarinnar á mismunandi tekjuhópa. Ef byrðarnar reynast leggjast þungt á tekjulægri hópa verður að bregðast við með fjárfestingum í loftslagsvænni þjónustu sem getur komið í stað þeirrar sem verið er að skattleggja eða með beingreiðslum til tekjulægri hópa sem verst verða fyrir barðinu á skattlagningunni.

BSRB leggur ríka áherslu á að skattalækkanir séu fullfjármagnaðar en leiði ekki til niðurskurðar í opinberum rekstri, fjárfestingum og tekjutilfærslum. Samneyslan er mikilvæg til að tryggja jafnræði meðal fólks, óháð tekjum, og veiking hennar leiðir af sér aukinn ójöfnuð í tekjum, heilsu og menntun.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?