Aukin samskipti við feður mikilvæg

Alþjóðleg samanburðarrannsókn sýnir að íslensk börn eiga í bestu samskiptin við feður sína af börnum frá þeim löndum sem tóku þátt í rannsókninni. Líklegt er að þetta tengist rétti feðra til fæðingarorlofs.

Fjallað var um rannsóknina í fréttum RÚV fyrir nokkru. Þar var rætt við Ársæl Arnarsson, prófessor í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Hann telur að aukinn réttur íslenskra feðra til fæðingarorlofs hafi áhrif þar sem rannsóknin taki til fyrstu árgangana sem nutu góðs af svo nefndum feðrakvóta. Enn fremur segir hann niðurstöðuna sýna svo ekki verði um villst að jafnrétti sé allra hagur.

Blikur eru á lofti í fæðingarorlofsmálum hér á landi, og hafa verið frá hruninu haustið 2008. Sífellt færri feður nýta rétt sinn til orlofs, sem er neikvætt fyrir börnin, feðurna og fyrir stöðu jafnréttismála hér á landi.

Í frétt RÚV er rakið að árgangarnir sem samanburðarrannsóknin nái til séu fyrstu árgangarnir sem hafi notið góðs af breytingu á fæðingarorlofi sem hafi aukið rétt feðra. Það telur Ársæll koma skýrt fram í niðurtöðunum. „Ég held að tilkoma feðraorlofsins hafi aukið þátttöku feðra í uppeldi barna sinna til mikilla muna. Þetta er auðvitað frábær árangur og við eigum að vera mjög stolt af því.“

Starfshópur vildi breytingar
Starfshópur sem falið var að móta tillögu að breytingu á lögum um fæðingarorlof skilaði ráðherra félagsmála skýrslu með tillögum í vor. Þar átti BSRB fulltrúa. Hópurinn lagði fram mótaðar tillögur um breytingar sem geta aukið líkurnar á því að lögin skili markmiðum sínum um að tryggja hagsmuni barna og jafnrétti á vinnumarkaði.

Starfshópurinn lagði til að tekjur foreldra í fæðingarorlofi upp að 300 þúsund krónum á mánuði verði ekki skertar, að greiðslurnar verði að hámarki 600 þúsund krónur og að orlofið lengist í samtals 12 mánuði.

Lítið gert með góðar tillögur
Lítið hefur verið gert með tillögur starfshópsins, þrátt fyrir að málið ætti að vera í forgangi hjá stjórnvöldum til að vinda ofan af neikvæðum áhrifum sem verða af því að feður nýti sér síður orlofið.

Ef ætlunin er að lög um fæðingarorlof nái þeim markmiðum að tryggja börnum samvistir við báða foreldra og auka jafnrétti á vinnumarkaði þarf að breyta lögunum sem fyrst og nota þá góðu vinnu sem starfshópurinn skildi eftir sig.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?