Vinnuréttur

 

Vinnuréttarvefur BSRB hefur að geyma upplýsingar um réttindi og skyldur starfsmanna á opinbera og almenna vinnumarkaðnum auk ýmissa annarra upplýsinga sem varða vinnumarkaðinn.

Áður en hægt er að kynna sér þær reglur sem gilda um réttindi og skyldur manna í starfi sínu þarf að gæta þess að ólíkar reglur gilda eftir því hjá hverjum er starfað. Þannig gilda að nokkru leyti ólíkar reglur um opinbera starfsmenn og um starfsmenn almenna vinnumarkaðarins. Einnig eru fjöldi reglna sem gilda fyrir alla á vinnumarkaði.

Þá byggja réttindi starfsfólks á vinnumarkaði á þremur meginstoðum sem eru lög og aðrar reglur settar af stjórnvöldum, kjarasamningar og ráðningarsamningar. Lög og reglur fela í sér lágmarksréttindi en í því felst að ef samið er um lakari kjör í kjara- eða ráðningarsamningi eru þau ógild. Kjarasamningar eru einnig lágmarkskjör sem felur í sér að ekki er hægt að semja frá sér réttindi sem þeir tryggja. Ákvæði ráðningarsamnings sem kveða á um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningi eru því einnig ógild. Með öðrum orðum þá má alltaf semja um betri réttindi en þau sem tryggð eru með lögum, einnig má semja um betri réttindi en kjarasamningur felur í sér en aldrei verri.

Umfjölluninni á síðunni er skipt í þrjá hluta; upphaf starfs, starfsævina og lok starfs. Undir þessum flipum má svo finna nánari flokkun viðfangsefnis.

Þegar við á er umfjölluninni skipt niður í umfjöllun um starfsmenn ríkisins, starfsmenn sveitarfélaga og starfsmenn almenna vinnumarkaðarins. Þá skiptist umfjöllun um starfsmenn ríkisins í tvennt þar sem að nokkru leyti gilda ólíkar reglur um embættismenn annars vegar og almenna starfsmenn ríkisins hins vegar. Almennir starfsmenn ríkisins eru allir starfsmenn þess sem ekki eru embættismenn.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?